Back to All Events

Nostalgía

  • Neskirkja Hagatorg Reykjavík, Reykjavíkurborg, 107 Iceland (map)

Flytjendur
Andrew Yang píanóleikari


Nokkur orð um dagskrána: Nostalgía er efnisskrá sem leggur áherslu á angurblíð verk eftir tvö af höfuðtónskáldum rómantíska tímans: Frédéric Chopin and Johannes Brahms. Verkin eru þrungin djúpum tilfinningum og ber þar mest á þrá, endurminningum og eftirsjá, en með undirtónum hetjuskapar og reisnar.

Hið átakamikla Scherzo nr. 1 eftir Chopin var vendipunktur í tónsmíðaferli hans, en með þessu verki sneri hann sér að myrkari og tilfinningaþrungnari verkum. Hann byrjaði að semja verkið í nóvemberuppreisninni gegn rússneska keisaradæminu árið 1830, en mánuði fyrr hafði tónskáldið flutt frá Póllandi vegna stjórnmálaástandsins. Á þessum tíma grunaði hann ekki að hann ætti aldrei eftir að snúa aftur til heimalands síns. Hægur miðkafli stykkisins einkennist af djúpri löngun, en hér vísar tónlistin í gamalt pólskt jólalag,  “Lulajże, Jezuniu/Sofðu, Jesúbarn.” Deux nocturnes eða Tvö næturljóð, ópus 62, sem Chopin samdi árið 1846 þegar heilsu hans fór ört hrakandi, voru síðustu stóru píanóverkin sem tónskáldið samdi á ferli sínum. Í þessum einstöku næturljóðum fara hinar undurfögru laglínur sem Chopin er þekktur fyrir saman við þéttari áferð, kontrapunkt í anda Bachs og óhlutbundnari hljóma.

Á síðustu æviárunum samdi Brahms (1833 - 1897) fjögur söfn af píanóverkum (ópus 116 - 119), en þetta urðu síðustu píanóverk hans. Þrjú intermezzi, ópus 117, eru ef til vill angurværust verkanna, en sjálfur lýsti Brahms þeim sem “vögguvísum fyrir kvalir mínar.” Fyrir ofan fyrsta intermezzo-ið standa tvær línur úr skoskri ballöðu, “Harmaljóði lafði Anne Bothwell”:

Sof, barnið mitt, sof vært í ró,
Við grát þinn er mér um og ó.

Auk intermezzo-anna hljóma þrjú frekari verk úr síðustu píanósöfnum Brahms. Intermezzi nr. 1 og 2 úr ópus 118 eru tileinkuð Clöru Schumann, en Brahms átti djúpt og ástríkt en að sama skapa flókið samband við hana frá því að hann kynntist Schumann-hjónunum árið 1853 og þar til Clara lést 1896. Þegar Brahms lék síðara intermezzo-ið fyrir Clöru minnist dóttir hennar þess í endurminningum sínum að móðir hennar hafi yfirgefið stofuna með tárin í augunum. Það er einungis hægt að gera sér í hugarlund hvernig Clöru hefur liðið er hún heyrði ástúðlega eftirsjána sem svífur yfir vötnum í stykkinu og leit um öxl yfir fjögurra áratuga erfiða en kærleiksríka vináttu.

Í Fantaisie-Capriccio ópus 116 nr. 7 kveður við uppreisnartón, en þar blandast saman haustmæða og hetjuskapur.

Auk verka eftir Chopin og Brahms hljóma þrjár Scarlatti-sónötur. Verk Scarlattis nutu ekki mikilla vinsælda á 19. öld, en vöktu aðdáun bæði Brahms og Chopin, sem lét nemendur sína oft fá Scarlatti-sónötur sem gott dæmi um ljóðrænu í laglínugerð. Impromptu í fís-moll “Never Let Me Go” er verk sem Andrew Yang sjálfur samdi fyrir nokkrum mánuðum. Það er að hluta til innblásið af samnefndu meistaraverki japansk-breska rithöfundarins Kazuo Ishiguro, þar sem tekist er á við nánd, mennsku og söknuð í dystópísku umhverfi.

Previous
Previous
December 20

Jólin alls staðar

Next
Next
February 21

Kórtónleikar